Ég og Ásgeir höfum ákveðið að heiðra eitt stykki skátamót með viðveru okkar um páskana. Skátamót þetta er haldið hér í landi Þjóðverja svo ekki er langt fyrir okkur að fara. Allir þátttakendur eru vinsamlegast beðnir um að fylgja ákveðnu þema sem mótshaldarar hafi fundið upp á og þetta árið er það Sherlock Holmes og félagar. Þessu fylgir auðvitað að þeir sem ekki luma á tilheyrandi klæðnaði í fataskápnum hjá sér, þurfa að finna sér eitthvað sem hefði gegnið í
London um miðja 19. öldina. Íbúar Peterastrasse 1, 5. hæð, miðjuíbúð, virtust ekki eiga slíkan gersema þannig að leið þeirra lá í ,,second hand“ búð í miðbæ Nürnberg. Þetta þótti allsérstakt þar sem það er vitað mál að ég er jú, með ofnæmi fyrir fötum sem ég veit ekki hverjir hafa átt áður. Samþykki lá þó fyrir eftir að ákvörðun hafði verið tekin um að leiðinni heim myndum við kippa upp eins og einu extra-multi-super-klór þvottaefni á leiðinni heim. 🙂Það sérstaka við frásögn þessa er þó ekki að fatakaup skuli hafa farið fram eða að þau hafi verið framkvæmd í ,,second hand“ búð. Nei, ó nei. Ég hafði fundið ágætis fatnað í búðinni (vítt og sítt svart pils, gul-hvíta skyrtu sem er hneppt upp að höku og hatt með slaufu í stíl) og var í mátunarklefa fullklædd. Ég skælbrosi framan í spegilinn enda skemmtileg sjón. Er þá ekki klefinn
minn opnaður og kella ein glápir inní hann. Þegar hún hefur áttað sig á að hann er upptekinn lokar hún aftur. Sekúndum seinna opnar hún aftur, lokar og hlær svo frammi! Opnar svo í þriðja skiptið eins og ég sé eitthvað frík í dýragarði (eða hún hefur haldið að þarna væri tímavél á ferð og ef svo er, er henni fyrirgefið)! Ég er ekki lengi að vippa mér úr skrúðanum og labba fram. Stendur ekki kella þar og glottir til mín. ARG!Ég, kurteisin uppmáluð sem ætíð, segi auðvitað ekkert við kelluna (ekki halda að ástæðan hafi verið að ég kunni ekki að segja neitt á þýsku, því það er sko ekki rétt…) og borga fyrir. Þetta atvik minnti mig þó á þegar ég og góð vinkona mín þurftum að fara inní Blómaval og vildi svo til að vinkona mín var klædd (og máluð) eins og Silvía Nótt. Það fyrsta sem við sjáum þegar við göngum inní búðina er bekkjarfélagi vinkonu minnar. Henni bregður, enda bjóst hún ekki við að þekkja neinn þarna og kallar skelkuð upp fyrir sig, ,,ég er á leið í þemapartý, SKO!“
6 athugasemdir
Comments feed for this article
mars 26, 2007 kl. 9:41 e.h.
Helga
Það er eitthvað rugl á vafranum hjá mér. Sjáiði færsluna?
mars 27, 2007 kl. 1:57 f.h.
Heiðrún
Já… þetta er lengsta færsla sem ég hef séð! Hún hefur upphaf (titil) en er endalaus!
mars 27, 2007 kl. 1:24 e.h.
Heiðrún
Uhh… ég sé færsluna núna! Spes!
Hvað var málið með klefakellinguna?! Veistu… þetta minnir mig á ákveðið atvik úr interrail. Eins og er man ég nú ekki alveg hvar við vorum (grunar Pula) en þennan dag vorum við á gangi um bæinn. Eftir ágætis labb rekumst við á litla búð og fyrir utan þessa litlu búð er fataslá. Á þessari fataslá eru kjólar. Ég man að á þessari fataslá fannst þú nokkuð sætann kjól sem þú hafðir áhuga á að fjárfesta í. Ég man líka eftir því að þér var boðið upp á að máta kjólinn… þú ferð inn og ég fylgi á eftir. Minnir að ég hafi verið í mátunarfýling líka. Okkur er hinsvegar fylgt á bakvið einhversstaðar þar sem þú áttir að máta kjólinn í rými stærra en íbúðin okkar Kiddó og ekki bara það heldur fór kerlingin sko ekki úr rýminu heldur stóð og glápti á þig afklæðast! Þegar sá kjóll passaði ekki kom hún með fleiri og fleiri kjóla til þín sem voru hver öðrum ljótari! Allan tímann stóð kerlingin og hjálpaði þér í og úr kjólunum. Aðeins OF mikil hjálp þar! Já… ég man ekki hvernig við komumst út en ég man að við þurftum að berjast til þess að fá frelsið til baka!
Var ég líka að máta?!
mars 27, 2007 kl. 1:34 e.h.
Bakkus
Ég veit ekki hvor er fyndnari tilhugsun, ÞÚ, Helga mín, á skátamóti, eða þessi…uh….áhugasama… kella. Hahahaha…. 🙂 🙂
Mig minnir að þið hafið komist út úr mátunarógöngunum í Pula (já, það var þar) vegna þess að ég stóð fyrir utan búðina og var með hótanir um að stinga ykkur af því að á þessum tímapunkti var andlegt ástand mitt ekki uppá sitt besta. Var þetta ekki einmitt dagurinn sem fuglarnir kúkuðu á Gullu? 😦 Og ég var svo lasin að mig langaði ekki einu sinni í pítsu. 😦
Af hverju hugsa ég hlýlega til Interrail?
mars 27, 2007 kl. 2:16 e.h.
Helga
Guð, já! Ég var búin að gleyma þessu. Ég man ekki hvort þú varst að máta eitthvað, Heiðrún en ég man þó glöggelga eftir konunni sem stóð yfir okkur þarna baka til!
Þetta var einmitt sama dag og fuglarnir kúkuðu á Gullu! Ég man einnig eftir því að ég keypti af konunni pils.
mars 27, 2007 kl. 2:28 e.h.
Una
Hahahaha! Ein ekki feimin við að láta álit sitt í ljós… ekki jafn kurteis og þú Helga mín ;o)
Þetta móment í Blómaval var náttúrulega alveg ótrúlegt. Af öllu fólki sem við hefðum getað rekist á.
Ein vinkona mín var einhvern tímann inni í búð að máta, alveg í fíling og hrúgaði hverri flíkinni á fætur annarri yfir slána sem huldi hana frá umheiminum. Svo var stund milli stríða og hún stendur þarna á g-streng einum fata þegar sláin gefur eftir og hrynur í gólfið! Awwwkward!
Ég öfunda þig svo að vera að fara á skátamót. Þú verður bara að byrja í Hraunbúum ;o)
Vá, sundurleitt komment.