Ég og Ásgeir höfum ákveðið að heiðra eitt stykki skátamót með viðveru okkar um páskana. Skátamót þetta er haldið hér í landi Þjóðverja svo ekki er langt fyrir okkur að fara. Allir þátttakendur eru vinsamlegast beðnir um að fylgja ákveðnu þema sem mótshaldarar hafi fundið upp á og þetta árið er það Sherlock Holmes og félagar. Þessu fylgir auðvitað að þeir sem ekki luma á tilheyrandi klæðnaði í fataskápnum hjá sér, þurfa að finna sér eitthvað sem hefði gegnið í
London um miðja 19. öldina. Íbúar Peterastrasse 1, 5. hæð, miðjuíbúð, virtust ekki eiga slíkan gersema þannig að leið þeirra lá í ,,second hand“ búð í miðbæ Nürnberg. Þetta þótti allsérstakt þar sem það er vitað mál að ég er jú, með ofnæmi fyrir fötum sem ég veit ekki hverjir hafa átt áður. Samþykki lá þó fyrir eftir að ákvörðun hafði verið tekin um að leiðinni heim myndum við kippa upp eins og einu extra-multi-super-klór þvottaefni á leiðinni heim. 🙂
Það sérstaka við frásögn þessa er þó ekki að fatakaup skuli hafa farið fram eða að þau hafi verið framkvæmd í ,,second hand“ búð. Nei, ó nei. Ég hafði fundið ágætis fatnað í búðinni (vítt og sítt svart pils, gul-hvíta skyrtu sem er hneppt upp að höku og hatt með slaufu í stíl) og var í mátunarklefa fullklædd. Ég skælbrosi framan í spegilinn enda skemmtileg sjón. Er þá ekki klefinn
minn opnaður og kella ein glápir inní hann. Þegar hún hefur áttað sig á að hann er upptekinn lokar hún aftur. Sekúndum seinna opnar hún aftur, lokar og hlær svo frammi! Opnar svo í þriðja skiptið eins og ég sé eitthvað frík í dýragarði (eða hún hefur haldið að þarna væri tímavél á ferð og ef svo er, er henni fyrirgefið)! Ég er ekki lengi að vippa mér úr skrúðanum og labba fram. Stendur ekki kella þar og glottir til mín. ARG!
Ég, kurteisin uppmáluð sem ætíð, segi auðvitað ekkert við kelluna (ekki halda að ástæðan hafi verið að ég kunni ekki að segja neitt á þýsku, því það er sko ekki rétt…) og borga fyrir. Þetta atvik minnti mig þó á þegar ég og góð vinkona mín þurftum að fara inní Blómaval og vildi svo til að vinkona mín var klædd (og máluð) eins og Silvía Nótt. Það fyrsta sem við sjáum þegar við göngum inní búðina er bekkjarfélagi vinkonu minnar. Henni bregður, enda bjóst hún ekki við að þekkja neinn þarna og kallar skelkuð upp fyrir sig, ,,ég er á leið í þemapartý, SKO!“