Ég las furðulega frétt áðan á vef Morgunblaðsins. Sagt var frá að maður á þrítugsaldri yrði líkast til dæmdur til fjársektar fyrir að hafa keypt áfengi handa unglingum á aldrinum 16-17 ára. Þetta þykir eflaust fréttnæmt þar sem ekki er oft haft hendur í hári fólks sem fremur brot sem þetta og jafnvel líka öðrum víti til varnaðar. Það sem vakti þó furðu mína var, hvernig í ósköpunum komst þetta upp? Það var tekið fram að maðurinn hafði verslað í vínbúð í Smáralind og verið handtekin þar. Er þetta heimskasti lögbrjótur Íslands, eða…? Fór hann virkilega inní Ríkið, keypti áfengi eftir kalli og rétti þeim svo pokann fyrir utan? Vildi hann að þetta kæmist upp? Ef ekki, af hverju afhenti hann þá ekki veigarnar annarsstaðar en beint fyrir utan verslunina. Hefði jafnvel ekki þurft að fara lengra en útá bílastæði.

Í sömu frétt kom fram að tvær konur hefðu verið gripnar við samskonar athæfi síðastliðinn laugardag. Ég er farin að halda að flensan sem gengið hefur undanfarið hafi leitt upp í heila og skaddað þar skynsemi fólks. Nú er ég ekki beint að segja að það sé mjög skynsamt að kaupa áfengi handa þeim sem ekki hafa lögaldur til að drekka það EN ef maður er að gera það á annað borð þá er betra að afhenda ekki búsið í verslunarmiðstöð, fullri af fólki sem er, mögulega ekki sammála þér um réttmæti unglingadrykkju!