You are currently browsing the monthly archive for febrúar 2007.

Ég VERÐ að fá að vita þetta, áður en ég verð geðveik!
Ég er að hugsa um mynd. Hún er japönsk. Fjallar um systkini sem þurfa að sjá um sig sjálf eftir að mamma þeirra yfirgefur þau. Yngsta systirinn deyr og systkini hennar og vinkona þeirra grafa hana hjá flugvelli, í ferðatösku sem er annars full af sælgæti. Hvað heitir þessi mynd?

Hver sá sem svarar þessu mun eiga ást mín að eilífu!

Mig langaði aðeins til að breyta útlitinu á síðunni minni. Hvernig finnst ykkur? Annars á ég við lítið vandamál að stríða og það er að mig langar í nýjan haus (myndin á topp síðunnar). Vandamálið er að ég veit nákvæmlega hvaða mynd ég vil nota en til þess þarf ég þó leyfi frá ákveðinni manneskju… Heiðrún? Ég held þú vitir hvaða mynd ég á við…

Ég bý svo vel að búa í endaíbúð í blokk og hef því glugga sem snúa í tvær áttir. Önnur hliðin er nú ekki spennandi en hún vísar út á umferðargötu en hin hliðin er skemmtilegri. Hún snýr að blokk sem stendur hinum megin við litla götu en er svo nálægt að ég get fylgst gaumgæfilega með lífi nágranna minni. Blokkin er 6 hæðir, eða 1 hæð meira en mín. Á efstu hæð býr eldri kona sem ég hef einstaklega gaman af. Hún er með gardínur fyrir hálfum glugganum og þegar hún þarf að kíkja út, sem er nokkuð oft, lyftir hún upp öðru horni gardínunnar og gægist. Þetta gerir hún eflaust svo engin komist að því hversu forvitin hún er, en ég veit betur… 🙂 Ef hún tekur eftir gluggagæjinum hinum megin við götuna (aka ég) þá ætla ég að vinka. Hver veit, kannski eignast ég vin!kasta

Beint fyrir neðan hana býr svo kona sem er einstaklega pirrandi. Þessi kona er ekki jafn skemmtileg þar sem hún er mjög opinská í forvitni sinni. Henni nægir ekki að kíkja (eins og mér og gömlu konunni á 6. hæð) heldur opnar hún gluggann upp á gátt (svona eins og dyr), setur púða á silluna og hallar sér út! Þvílík og önnur eins ósvífni! Ég veit ekki einu sinni á hvað hún þykist vera að horfa, þarna er ekkert nema umferðargata! Eins og þetta sé ekki nóg þá stóð ég hana að því að halla sér útum gluggann í morgun, klædd flegnum náttkjól, borandi í nefið!

Allra skemmtilegustu nágrannar mínir eru þó ungir menn (3 talsins) sem búa á 4. hæð. Þeir eyða miklum tíma inni í eldhúsi (þar er engin gardína svo maður sér beint inn) og eiga það til að rífast þar. Ég sá þá m.a.s. einu sinni kasta brauði! Það eina amalega við þessa íbúð er að þeir sofa í kojum (mjög juvi) og eiga einstaklega ljót sængurföt. Sætir strákar þó sem eru eflaust ágætis fengur þar sem þeir virðast kunna að elda. 🙂

P.S. Ég geri mér fullkomna grein fyrir því hvað þessi færsla segir um afþreyingu mína á daginn. Eða skort þar á.

Ég hef hlotið þann titil að vera versta systir EVER! Ég rakst á bloggsíðu Valdimars og vinar hans… ég las það sem þeir höfðu skrifað og meðal þess var ,,allir sem koma á þessa síðu verða að kvitta í gestabók“. Ég tók hann á orðinu og hef eflaust komið því til leiðar að vinir hans og kunningjar sem lesa síðuna eiga eftir að hlæja… að honum! Ég er svo vond! En ég bara hreinlega réð ekki við mig. Kvikindið kom upp í mér og orð/nafn eins og Daddmar dúddilíus voru skrifuð!

Á ég einhverja von um veru í Himnaríki eftir þennan glæp sem ég hef framið?

Ég man glögglega eftir þeim tíma þegar mér fannst sem foreldrar mínir væru gamlir og að þau skildu einfaldlega ekki hvernig það væri að vera ung! Jæja, ég á ekki börn og er rétt að skríða yfir á þrítugsaldurinn en finnst samt sem áður að ég hljóti að vera orðin gömul. Ég var að lesa blogg hjá ónefndri frænku minni sem er á miðjum táningsaldrinum og ég er ekki frá því að ég sé þegar komin á það stig ,,að skilja ekki“. Burtséð frá því að hún talar tungumál sem er mér óskiljanlegt (kommur, punktar og upphrópunarmerki hafa fengið nýja merkingu og orð koma fyrir sem hvergi má finna í orðabók, hvorki íslenskri né erlendum) þá er þetta sjálfhverfasta síða sem ég hef nokkurn tíma séð! Það fer meira fyrir andlitsmyndum af ónefndu frænkunni en texta og hver einasta færsla er fátt annað en lofgjörð um ágæti stúlkunnar og færni hennar í að tæla unga drengi!

Er þetta virkilega það sem hún vill að fólk haldi um sig? Ég fann síðuna hennar þegar ég var að vafra um netið og sá mynd af henni og ákvað því að lesa þetta. Hefði betur látið það eiga sig! En það sýnir bara og sannar að hver sem er getur fundið þetta. Ef ég hefði óstjórnlega löngun til að halda klúrna dagbók þá myndi ég ekki gera það á vettvangi sem amma og afi eiga leið um!

Ég er orðin svo gömul…

Jæja, ég er komin til lands Þjóðverjanna, enn og aftur. Ferðin gekk áfallalaust fyrir sig. Ég var m.a.s. svo heppin að fá heila sætaröð útaf fyrir mig þannig að ég nældi mér bara í teppi og kodda og lagði mig. Ásgeir beið mín svo á flugvellinum, en vinur hans var einmitt að fara heim til Íslands með sömu flugvél og ég kom með.

Það er annars ekki frá mörgu að segja… við fórum reyndar í miðbæinn í dag og rétt eins og alltaf, átti ég ekki í vandræðum með að rata!

Vá, ég hef nákvæmlega ekkert að segja. Ef mér dettur eitthvað í hug kem ég hingað og skrifa um það!

Tschüss!

Ég hef heyrt því fleygt að Vestmannaeyjar ættu að vera sér þjóð þar sem eyjaskeggjar eru oft sagðir sérstæðir og frábrugnir okkur uppi á landi.

Gamalíel, Gyðríður, Steinríður, Einarína, Svipmundur, Eyflalía… Need I say more?

Eins og flestir sem hafa hitt mig vita, þá er ég ekki hin þolinmóðasta. Ég finn mér ætíð eitthvað nýtt til að pirra mig í hverri viku. Strætisvagnar hljóta hinn vafasama titil; pirringur vikunar, í þetta skiptið.

Ég hef tekið upp þann sið að hitta Bakkus (aka Sigga) í hádegishléunum mínum og fáum við okkur eitthvað gott í gogginn, spjöllum og höldum svo aftur á vit ævintýranna. Þar sem ég löt (tel mig ekki þurfa fara nánar út í það…) þá keyri ég auðvitað niður í bæ þar sem ég get auðvitað ekki látið nokkurn mann sjá mig leggja á mig göngutúr! Þetta væri ekki frásögum færandi nema hvað ég keyri alltaf niður alla Hverfisgötuna og legg niður við Kolaport. Nú, eftir heila viku af þessum stuttu bíltúrum mínum hef ég komist að því að strætó keyrir ALLTAF niður Hverfisgötuna á sama tíma og ég. Allir sem nokkurn tíman hafa keyrt á eftir strætó vita að það er næstum sama og dauðarefsing en ekkert, ó ekkert er eins og að keyra á eftir þeim niður hina áðurnefndu götu. Ég hef talið, án gríns, hversu mörg stopp eru og já, þau eru hvorki meira né minna en þrjú! Eins og það sé ekki nóg þá stoppar hann á hverri einustu í langan tíma! Það lítur nefnilega út fyrir að allir þeir sem notast við strætisvagnaþjónustu Reykjavíkur og nágrennis búi eða vinni í grennd við Hverfisgötuna. Allir 12!! Það hefur tekið mig 10 mínútur að komast þenna stutta spotta bara vegna strætó! Svo slæmt var þetta orðið að ég íhugaði að leggja bílnum og ganga restina!

Þetta er svo sem ekki það eina við Hverfisgötu-strætóin sem fer í mínar fínustu. ,,Skipulagsmeistarar“ Strætó hafa nefnilega, greinilega eftir mikla umhugsun (EKKI), ákveðið að best væri að koma stoppistöðvunum fyrir rétt við umferðarljós svo það væri nú alveg öruggt að saklaust fólk (ég í þessu tilfelli) sitji fast á miðjum gatnamótum á rauðu ljósi með aðra bíla flautandi á sig! PIRR!!!

Blog Stats

  • 9.649 hits
febrúar 2007
M F V F F S S
 1234
567891011
12131415161718
19202122232425
262728