You are currently browsing the monthly archive for nóvember 2006.

Ég hef mikinn tíma aflögu hér í Nürnberg. Ekki svo að skilja að hér sé ekki nóg í boði, ég er bara einfaldlega löt. Þetta þýðir að þegar ég hef ,,ekkert“ að gera vafra ég mikið um netið og finn því hinar skemmtilegustu síður. Ég get nefnt sem dæmi ferðasíðu eina (ég veit að það ég skuli hafa fundið FERÐAsíðu kemur mjög á óvart). Ég var að lesa um mjög svo skemmtilegt prógramm sem fer fram í Thailandi. Við hlið hverrar lýsingar kemur svo listi yfir hluti sem eru innifaldir í verði og svo annar þar sem kemur fram hvað er ekki innifalið. Í síðarnefnda listanum stendur ,,alcoholic beverages“. Þetta hefði ekki vakið athygli mína nema af því að ég var búin að vera á þessari síðu í dágóðan tíma og í engu öðru prógrammi hafði þetta verið tekið fram. Þýðir það að í öllum hinum fylgi bjórkútur með???

Fjóra daga í viku labba ég í skólann og aftur heim að honum loknum. Göngutúrinn tekur mig u.þ.b. 20 mínútur (hvor leið) og hlusta ég gjarnan á i-pod’inn minn á leiðinni. Í dag varð engin undantekning á þessu nema hvað ég ákveð með sjálfri mér að ég megi ekki hlusta á það sem ég er vön að hlusta á og varð íslensk tónlist því fyrir valinu í þetta skiptið. Gallinn við tónlist á mínu ástkæra tungumáli er að ég kann alla textanna. Gallinn við að kunna textana er að það eru meiri líkur á því að maður bresti í söng. Stærsti gallinn af öllum er þó að ef maður sameinar galla 1 með mér þá er mjög líklegt að galli 2 eigi sér stað… en það gerðist einmitt. Já, það voru vitni. Ég veit, ég er auli!

Þeir sem mig þekkja, vita að ég á það til að verða svolítið pirruð, svona við og við. Nú vill svo til að ég hef verið með bakverk og vöðvabólgu síðan á miðvikudag og er heilsan, ásamt svefnleysinu sem fylgir, farið að fara örlítið í taugarnar á mér. Þegar ég VAKNA í morgun er ég svo kampakát þegar ég er komin úr svefnmókinu því ég átta mig á að ég hef virkilega sofið alla nóttina. Betri tímar? Saklaus stúlka, eins og ég, trúði því en svo er nú ekki. Ég er búin að fá mér morgunmat, sólin skín, mér er ekki kalt, ekki heitt… allt í goody! Ég ákveð að láta fleiri finna fyrir góða skapinu og ætla mér að hringja í mömmu. Hvað gerist þá? Haldiði ekki að síminn hafi ákveðið að snúast gegn mér! Það er ekki hægt að hringja úr símanum! Af hverju? Ég veit það ekki! En, ég er með tilgátu. Síminn hefur eflaust fundið fyrir því að ég hef verið pirruð undanfarna daga og eftir þetta elífðarpirr hefur hann sjálfur ákveðið að það er ekkert gott að vera endalaust í góðu skapi. Þar sem ég þekki þessa tilfinningu ætla ég að bíða þolinmóð… :o)

Ég er í þýskunámi hérna í Nürnberg. Það væri ekki orðum ofaukið að segja að hópurinn sé áhugaverður. Á mína hægri hlið situr stelpa á mínum aldri en hún er frá Uruguay. Hún er hér því hún sótti um skólastyrk í heimalandinu til þess að komast hingað. Hún talar samt enga þýsku (segir sér kannski sjálft fyrst hún er með mér í tíma) og er því bara að dúlla sér hér í eitt ár. Af hverju í ósköpunum sótti hún um Þýskaland þar sem maður þarf að kunna þýsku til að stunda nám hér???

Stúlkan frá Uruguay er nú ekki eini skrautlegi karakterinn í hópnum. Nei, ó nei! Þar er einnig kona frá Taílandi. Þessi kona virðist heita mörgum nöfnum auk þess sem hún vill láta kalla sig dagsdaglega; s.s. Helga, Istiaq, Ximena og Kuldeep svo eitthvað sé nefnt. Þessu hef ég komist að þegar konan svarar ÖLLUM spurningum sem eru spurðar í tímunum burtséð frá því hvern er verið að spyrja! Það er annars gaman að segja frá því að konan heitir Porn svo það er kannski ekki skrýtið að hún vilji láta sem hún heiti eitthvað annað!

Það er annars svolítið furðulegt að sitja í þessum tímum. Ég virðist kunna meira í þýsku en fólk sem hefur búið hérna í 5 ár! Já, þetta er raunverulegt dæmi. Maður einn í tímunum kann ekkert í þýsku nema… tilbúin? Tölurnar! Í hvert einasta skipti sem tala kemur fyrir í texta sem einhver er að lesa (ekkert endilega hann) kallar hann upp töluna! Svona eins og til að sanna, ,, Haha! Já, ég kann tölurnar. Get samt ekki kynnt mig!“ Mjög þreytandi! Þetta er stundum eins og að vera í dýragarði þegar Porn og kallinn eru bæði í ham!

Jæja, ég held að þetta sé komið gott í bili. Vil ekki þreyta ykkur um of með sögum af… áhugaverðu fólki!

Ég og Ásgeir fórum til Treuchtlingen um helgina. Vægast sagt áhugaverð ferð. Í fyrsta lagi má nefna að Uli (gestgjafinn) er þýskur og talar þ.a.l. þýsku. Heili minn er varanlega orðinn að hafragraut enda hefur þýska þann undarlega eiginleika að hlusti maður of mikið á fólk sem talar þetta tungumál lamast heili manns og hleypur í kekki. Vona að þetta sé ekki varanlegt!

Eins og það hafi ekki verið nóg að hafa graut á milli eyrnanna, komst ég að því að akstursmenning Þjóðverja er svolítið frábrugðin okkar. Uli keyrir um á ’83 módeli af Volkswagen Passat – gott mál. Uli er 75 ára – gott mál. Uli keyrir í myrkri – gott mál. Uli keyrir í rigningu – gott mál. Uli keyrir á 140 km/klst – EKKI gott mál og allra síst ef þú blandar áðurnefndum upplýsingum við! Við skulum bara segja að ég hafi kreppt tærnar pínku ponsu og langað til að æla aðeins meira en pínku ponsu!

Ferðin var annars ekki með öllu slæm enda fékk ég að skoða kirkju, gamlar kastalarústir og hálfgerða höll þar sem í dag er iðnarsafn. Fékk auk þess góðan mat en það getur bjargað hvaða degi sem er!

Fleiri verða fréttirnar ekki í bili.

Tschüss!

Loksins, ó loksins! Já, ég hef ákveðið að leyfa veraldarvefnum og notendum hans að fylgjast með mínu spennandi lífi og þeim pælingum sem fylgja, en af þeim er víst nóg!

Það er frá nógu að segja enda margt sem drífur á daga mína… Ég vil þó ekki að opnunarfærslan sé neitt meira en einmitt það… opnunarfærsla. Get þó sagt frá því að takmark mitt með þessu bloggi er að blogga oftar en Gulla danska (ég veit, mjög göfugt…)!

Látum þetta heita gott í bili! Tschüss

Blog Stats

  • 9.649 hits
nóvember 2006
M F V F F S S
 12345
6789101112
13141516171819
20212223242526
27282930