You are currently browsing the category archive for the ‘Uncategorized’ category.

Ég bjóst við því að þegar ég færi frá Nürnberg myndi ég sakna þess að eiga áhugaverða nágranna. Úti var kellinginn sem gægðist út um eldhúsgluggann sinn og hélt að enginn sæi hana, sætu strákarnir sem elduðu seint á kvöldin og konan með stóru júllurnar sem hékk útum gluggann sinn hálfan daginn með hárið í allar áttir. Já, ég hélt að þessum kafla í lífi mínu, sem gluggagægir, væri lokið. Því miður hafði ég rangt fyrir mér.

Núna rétt áðan stóð ég úti á svölum hjá mér og leit í kringum mig og auðvitað leituðu augu mín til glugga nágranna minna. Það sem ég sá var hálfnakinn maður (sem ég hef séð áður, bara fullklæddann) sem stóð í eldhúsinu sínu. Hann slekkur svo ljósið þar og gengur fram á gang. Ég var sátt með að hafa séð líf og hugsaði með mér að nú gæti ég farið sátt að sofa. Úr því varð ekki þar sem maðurinn gengur inn í herbergi (sem ég geri nú ráð fyrir að sé svefnherbergi) og klæðir sig úr buxunum. Ekki nóg með það heldur fjúka sokkarnir og nærurnar á eftir (þær voru rauðar, ef einhver hefur áhuga…) og maðurinn stendur nú full frontal í nokkrar sekúndur áður en hann kastar sér í rúmið. Mér finnst sem ég hafi misst sakleysi mitt og að maðurinn hafi misnotað sér áráttu mína sem gluggagægir. Héðan í frá mun ég bara glápa á hæðina fyrir ofan og sjá hvort að dökkhærða stelpan matreiði eitthvað spennandi og taki þetta fáránlega drasl úr glugganum hjá sér!

Ég er í of stórum íþróttabol, buxum sem ég gekk síðast í í interrail (need I say more?), er sveitt með málningu í hárinu og klappa þrífættum ketti. Jebb, það er fimmtudagur og ég er því ekki í skólanum (og hef aldrei verið jafn leið yfir því) og hef því verið fengin af manni, sem segir að honum þykir vænt um mig (ég er farin að efast), að skafa upp dúkalím af gólfum og málningu af veggjum. Einstaka sinnum tek ég mér pásu, undir því yfirskyni af kötturinn sé athyglissjúkur. Ofan á þetta er ég þyrst en nenni ómögulega að labba útí búð að kaupa mér eitthvað að drekka.

Já, það er opinbert að ég er vælari. Eftir því sem ég man best var það ég sem talaði kærastann minn inná það að taka íbúðina í gegn. Ég tek það þó fram að ég ætlaðist aldrei til að ég þyrfti að standa í því sjálf. Til hvers að eiga kærasta, pabba, bróðir og aðra karlkyns ættingja og vini ef ekki til slíkra hluta sem þessa?

Stjáni er kominn aftur (ótrúlegt en satt, hann virðist laðast að interrail buxunum) og ég verð því að sinna greyinu.

Ótrúlegt en satt, en það átti sér stað skemmtilegt atvik í lífefnafræði í dag. Eftir hlé kemur kennarinn inn og segist hafa fundið síma frammi og spyr hvort að einhver hér kannist við að hafa týnt síma. Svo var ekki og heldur kennsla því áfram.

Hörður kennari er að tala um einstaklega skemmtilegt og spennandi efni þegar allt í einu… ,,Lífið er yndislegt, ó sjáðu…“ . Algjör þögn tekur við og Hörður starir á borðið og tekur svo upp bleikan blikkandi síma.

,,Halló? Já, þessi sími er hérna í Valsheimilinu. Ég fann hann á gólfinu. Já, bless.“

Eftir atvik þetta heldur tíminn áfram en… ekki lengi því söngurinn um lífið yndislega glymur við aftur og svarar Hörður því í annað sinn.

,,Halló? Já, síminn er hérna uppi í salnum. Komdu bara upp.“

Upp koma tvær, heldur vandræðalegur stúlkur. Önnur stoppar snarlega þegar hún áttar sig á að ca. 100 manns horfa á þær stöllur og glotta. Hin heldur áfram inn, eldrauð í framan með útréttar hendur. Hörður er ekkert að hafa fyrir því að ganga á móti henni heldur lætur hana ganga fram fyrir allan hópinn og standa í birtunni frá öðrum skjávarpanum þar sem stúlkan andvarpar og segir, ,,ó jesús, þetta er gaman… hehe…“. Eftir að hafa endurheimt vininn bleika hleypur hún út.

Lífefnafræðatíminn heldur áfram og ég er ekki frá því að ég sakni þess þegar lífið var yndislegt.

Þvílíkar kröfur alltaf sem maður þarf að standa undir. Ekki er nóg að ég neyðist til að sitja í drepleiðinlegum fyrirlestrum, læra fyrir þá og ná mér uppúr veikindum, heldur er nú líka krafa um að skrifa blogg hægri, vinstri! Mér finnst auk þess sem kvartanirnar komi úr hörðustu átt (frá manneskju sem EKKI á blogg og svo annari sem á sér þann draum að gerast fyllibytta í Þingholtunum).

Það er annars að frétta að ég á nú í vandræðum með svefn! Ástæðan er líkast til sú að ég sef fram að hádegi (þar sem ég þarf ekki að mæta í skólann fyrr en 12:30) og svo loksins þegar ég kem mér í skólann, sofna ég þar (hver myndi svosem ekki sofa yfir efnajöfnufyrirlestrum)! Hrrmmff!

Helga A. Gísladóttir lést á sviplegan hátt í morgun í æfingarhúsnæði Bootcamp. Vinkona hennar, sem ekki verður nafngreind að svo stöddu er grunuð um morð af yfirlögðu ráði en talið er að hún hafi lengi reynt að fá Helgu til að taka þátt í skipulögðum sjálfsmeiðingum (aka íþróttum). Þeim sem vilja minnast hennar er bent á Skókaups-styrktarsjóð Helgu (sem auðvitað verður breytt um nafn á fljótlega).

Ef að Helga væri enn á lífi er ég viss um að hún vildi koma á framfæri til fólks að láta sig ekki hlæja þar sem hún er með harðsperrur í magavöðvunum….. ekki það að hún sé á lífi…

Ritari: Einhver Annar

Ég hef hafið nám í Háskóla Íslands. Hingað til hef ég setið einn kynningarfund fyrir nýnema, skoðað Eirberg, keypt mér skólabækur og haft samband við Lánasjóð íslenskra námsmanna og þessu hef ég komist að: þetta verður seint talin liðlegasta stofnun Íslands.

Mental minnispunktar sem ég hef tekið síðustu tvo daga sem og svör sem ég hef fengið við fyrirspurnum mínum:

  • ,,Hvernig á ég að vita það?“ (svar starfsmanns í bóksölunni um spurningu varðandi kaup á skólabókum)
  • ,,Auðvitað er ekki útsala hér!!!“ (svar/öskur annars starfsmanns bóksölunnar þegar ég, í sakleysi mínu og góðri trú um að húmor væri líka að finna í miðbænum, sagði að greinilega væri ekki útsala hjá þeim þessa dagana)
  • ,,Skrifaðu bara eitthvað“ (svar starfsmanns LÍN varðandi umsóknir um námslán)
  • Kaupa amfetamín áður en almenn kennsla hefst til að halda sér vakandi meðan á fyrirlestrum stendur.
  • Aðalmarkmið HÍ er að skerpa heyrn nemenda með því að tala svo lágt að engin heyri í kennaranum… þó hann sé með míkrafón.
  • Annað markmið háskólans virðist vera að fækka nemendum með því að láta þá leggja eins langt frá Eirbergi og mögulegt er. Þeir muni því annað hvort drepa sig á því að reyna að hlaupa yfir gömlu Hringbrautina eða að leita að næstu gönguljósum (semsagt frjósa í hel).

Velkomin í Háskóla Íslands (sagt með flugfreyjuröddu)

Ég byrjaði að pakka í dag. Tók nærri öll fötin mín úr fataskápnum og kom fyrir í töskunni. Taskan er ekki nema hálffull. Ég hugsa með mér að þetta sé nú þó nokkuð vel pakkað hjá mér. Nú á ég bara eftir að ,,skella“ restinni ofan í og þá er allt klappað og klárt. Slepp við að senda einn einasta kassa eða kaupa auka tösku. En svo fór ég að velta fyrir mér… það sem ég á eftir að setja ofan í töskugarminn er allt snyrtidraslið (alls konar hárvörur, förðunardrasl, skartgripir, hárblásari, sléttujárn, body lotion x4 o.s.frv.), 12 pör af skóm, úlpa, treflar,húfa, 2 jakkar að ógleymdri bestu vinkonu minni, Carrie Bradshaw (fyrir þá sem ekki eru nógu menningarlega sinnaðir til að vita hver það er…. þá er það karakter í Sex and the City… öllum 6 þáttaröðunum sem þarf að ferma yfir á frónið). Svo það sem ég vildi sagt hafa er: ef einhver þarf að flytja eitthvað smotterí frá Þýskalandi þá er smá pláss eftir í gáminum.

Ég hef fundið nýja afsökun fyrir því að kaupa óhemjumikið af fötum á stuttu tímabili. Skólinn er að byrja! Ég man þegar ég var lítil og farið var með mann í búðir til að kaupa föt fyrir skólann. Það  skemmtilega er svo að hér í Þýskalandi er ódýrara en heima á fróninu sem þýðir að ég fæ meira fyrir minna. Mér líður eins og það séu að koma jól; ég get keypt án samviskubits!

Talandi um kaup á fötum og öðrum vörum fyrir skólann. Það var frétt um daginn þar sem talað var um dýrar skólatöskur. Sagt var frá því að samkeppnin væri svo ógurleg að verðmunurinn á milli búða, á tilteknum flottum skólatöskum, væri heilar 19 krónur! Samkeppni, my ass! Formaður neytandasamtakanna sagði að Íslendingar ættu þá bara að kaupa þessar tilteknu töskur í gegnum netið (helmingi ódýrari ef keyptar frá framleiðanda í Danmörku) og láta það ekki stoppa sig þó ekki væri hægt að senda þær til Íslands! Hvað formaðurinn meinar með þessu er mér enn hulið. Ef það er ekki sent, þá er það ekki sent! Kannski var hún að hvetja fólk til að panta í gegnum ættingja á Norðurlöndunum og láta þá senda manni þetta heim svo maður sleppi nú alveg örugglega við tolla og gjöld! Þetta er allavega eina skýringin sem ég get fundið á þessu ummælum formannsins. Sniðug/ur kall/kona að planta svona hugmyndum hjá fólki.

Jæja… lífið er ömurlegt!! Ég er búin að horfa á ALLA Sex and the City þættina og hef núna ekkert að gera! Can it get any worse? 😦

Ég var annars að lesa frétt á vísir.is þar sem talað var um reykingabannið. Skemmtilegt fyrirbæri! Þeir banna fólki að reykja á skemmtistöðum og veitingahúsum og senda liðið út. Allt er þetta gott mál þar sem mér finnst að þeir sem ekki reykja eigi að hafa rétt á því að skemmta sér í reyklausu umhverfi. Það sem mér finnst hins vegar fáránlegt er að þeir skuli svo sjálfir (bæði þeir sem um löggjöfina sjá og hinir sem sjá um að lögunum sé fylgt) kvarta svo yfir hávaða og mengun! Ef maður vísar liði út sem er, mögulega, í glasi þá má búast við hávaða. Ef þú vísar liði út sem reykir þá fylgja, auðvitað afgangarnir; stubbar. Hvernig væri að áður en svona lög eru sett, sé velt fyrir sér hvernig er hægt að komast hjá þessum vandamálum. Það sem fer í taugarnar á mér varðandi þessi lög er að svo virðist sem þeim hafi bara verið skellt í gegn en ekkert pælt í hvernig á að fylgja þeim eftir svo allir verði sáttir. Þetta er eins og að banna klósett og svo þegar allt er vaðandi í skít er kvartað yfir drullu og fnyk!

en ekki að ég myndi einhvern tímann taka til eins og ég gerði í dag. Ég hef svosem afrekað eitthvað svipað áður… þ.e. að halda því til streitu að ég muni EKKI taka til, þangað til mamma gefst upp og gerir það sjálf. Ég veit, ég er ofdekraður auli!

Ég virkilega ryksugaði OG skúraði og það í fleiri herbergjum en einu (semsagt tveimur). Ég m.a.s. færði til hluti en fór ekki í kringum þá (alveg satt!).

Veðrið hefur annars verið heldur skrýtið hér undanfarið. Það er glampandi og sól og allir voða happy en svo… kemur þessi líka úrhellis rigning! Við erum ekki að tala um íslenskar skúrir á góðum degi, ó nei. Það er sem himininn opnist og Kyrrahafið komi niður og það bara á 5 mínútum. Á fyrstu tveimur fyllast göturnar af vatni og niðurföllin hafa ekki við. Þetta var svo merkilegt að ég tók videomynd af þessu!

Það er annars ekki mikið að frétta… jú, ég var víst í París. Það var æði, auðvitað, eins og alltaf. Sá allt það klassíska (again) og svo náði Ásgeir að draga mig á staði sem mér sjálfri hefði aldrei dottið í hug að fara á… stuð! Það merkasta sem átti sér stað í ferðinni var að við,,ákváðum“ að labba upp Eiffel turninn! Jebb, sumir eru svo afslappaðir að þeir taka leiðbeiningar eins og „STAIRS ONLY!“ sem djók… þarf ég að taka það fram að það var EKKI DJÓK að labba upp? Þið getið rétt ímyndað ykkur, lata stelpan og lofthræddi strákurinn að labba saman upp (haltur leiðir blindan?) turninn fræga… án efa merkileg sjón! Það sem ég get hins vegar sýnt er mynd af Ásgeir þar sem hann heldur dauðahaldi í stöng og reynir að kíkja fram af, hann er btw hálfan meter frá handriðinu (fyrir þá sem ekki hafa komið í Eiffel turninn þá er ómögulegt að detta niður þar sem það er vírnet í kringum allan turninn og menn sem leita á þér við innganginn svo ekki getur maður verið með vírklippur eða naglbýt…). Annars ágæt ferð í alla staði. 🙂

Blog Stats

  • 9.649 hits
maí 2022
M F V F F S S
 1
2345678
9101112131415
16171819202122
23242526272829
3031