You are currently browsing the monthly archive for júní 2007.

Það er eitt mál sem er rætt víða í bloggheiminum og á spjallsíðum Íslands í dag. Það er um hrottalegt morð á litlum hund. Hann var víst tekinn ófrjálsri hendi á Akureyri og stungið í íþróttatösku sem seinna þjónaði hlutverki fótbolta! Eins hræðilegt og þetta er blöskrar mér hvernig talað er um þetta á netinu. Flestir láta sér nægja að úthúða meintum morðingja og segja að þessi maður verði að komast undir læknishendur (geðlæknir þá) og fá dóm fyrir gjörðir sínar. Svo eru það þessir ,,hinir“… ég rakst á link inná síðu hjá manninum sem SAGÐUR er hafa gert þetta. Þar er birt mynd af drengnum og eins og það sé ekki nóg þá er fólk að kommenta í gestabókina hans. Það er vægt til orða tekið að fólk beri honum ekki hlýjar kveðjur. Þar er ein kona sem tekur svo huggulega til orða að muni hún rekast á hann í framtíðinni hafi hún það í huga að hrækja á hann og sé maður hennar með í för verði hann ekki svo góður að láta það eitt nægja. Að lokum tekur hún það fram henni sé skapi næst að beita felgulykli á óæðri endann á honum. Þetta er aðeins eitt dæmi um það sem sagt er í gestabók drengsins.

Það sem ég velti fyrir mér er: hvað ef þarna er verið að fara mannavillt? Hann ber algengt nafn og er ljóshærður eins og margur landinn. Þetta hefur ekki verið sannað á hann að hann hafi gert þetta. Það sem fólk getur látið útúr sér er hreint með ólíkindum! Það lá við að ég roðnaði við lesturinn, svo ljótur var orðaforði fólks. Ég hefði haldið að fólk væri betur að sér en þetta, að kalla ,,NORN“ og þjóta af stað með kyndla á lofti!

Á síðastliðnum dögum hef ég komist að ýmsu um samskipti kynjanna og hvað við erum í raun að gera rangt. Hér set ég inn 2 dæmisögur sem auðvitað eru skálpskapur frá upphafi en bera ákveðinn sannleika með sér.

 Dæmisaga 1.

Kona kaupir sér nýjar flíkur. Í þetta skipið kaupir hún sér fallegan skokk, sokkabuxur og bol til að toppa lúkkið. Hún veit hún verður æðisleg. Þegar hún kemur heim sest hún í sófann, við hliðiná eiginmanninum og segir honum frá því að hún hafi keypt sér rosalega flott dress; kjól, sokkabuxur og bol og talar síðan um að þetta hafi verið mjög svo praktísk kaup hjá henni þar sem þetta passi við svo margt annað. Þegar hún  líkur máli sínu, lítur hún á karlinn sem glápir útum gluggann, rétt eins og hann hefur gert síðastliðnar mínútur. Hún spyr hann hvað sé svona merkilegt úti við. Eiginmaðurinn svarar ekki en eftir nokkurn tíma stendur hann upp og stefnir á stofudyrnar. Konan stendur upp og spyr hann hvað sé eiginlega að honum,  af hverju svari hann henni ekki. Karlinn snýr sér við í forundran og spyr kella þá hvort hann hafi nokkuð heyrt af því sem hún sagði. Karlinn svara játandi og segir hana hafa sagt að hún hefði enga hugmynd um í hvaða kjól hún ætti að fara í þessa stundina.

Dæmisaga 2.

Konu langar í úr. Hún hefur haft augastað á einu sérstöku í langan tíma, alveg hreint fleiri mánuði og talar ítrekað um það, við alla sem vilja heyra, að þetta úr muni hún eignast einn daginn. Í hverri einustu verslunarferð með eiginmanninum stoppar hún fyrir framan skartgripaverslunina og segir: ,,Mikið rosalega er þetta fallegt úr. Mig langar svo rosalega í það, ég veit það myndi fara mér rosalega vel.“ Karlinn játar og heldur göngu sinni áfram. Hálfi ári seinna kaupir konan sér úrið sjálf og segir við karlinn þegar heim er komið að hún hafi beðið nógu lengi eftir að hann gæfi sér úrið þannig að hún  hefði ákveðið að kaupa það sjálf. Karlinn er alveg hreint steinhissa og svarar að hann hafi ekkert vitað að henni langaði í úrið þar sem hún hefði aldrei beðið hann um það.

Hvað má svo læra af þessum dæmisögum? Jújú, hér er gullna reglan sem ég hef séð á næstum alltaf við.

Helsti galli kvenna er væl, suð og endalaust tal um allt og ekkert.

Helsti galli karla er að hlusta ekki að það.

Ég hef náð toppnum! Ég rakst á nafn sem ég hef aldrei, tek fram aldrei, séð eða svo mikið sem ímyndað mér að væri til! Það er ekki einu sinni á skrá yfir mannanöfn, hvorki leyfð né bönnuð. Nú hef ég eflaust gert ykkur mjög spennt (er það ekki annars?) og vona að ég valdi ykkur ekki vonbrigðum: Þórstensa… hvaðan kemur þetta stensa?

 Jæja, ég hef nú ekki verið þekkt, hingað til sem mikil miðbæjarrotta. Þar af leiðandi rata ég ekki alveg nógu vel. Ég var að keyra í gamla miðbænum um daginn og beygi inn vitlausa götu og enda, einhvern veginn, á Laufásvegi. Þar sé ég voðalega sætan kött sem er að labba á gangstétt og fer ég, auðvitað að glápa á hann. Það fer þó ekki betur en svo að ég klessi næstum því á bandaríska sendiráðið, eða réttara sagt steinsteypuvirkið í kring (jafn víggirta byggingu hef ég aldrei séð). Ég bremsa auðvitað, enn í sjokki og lít þá upp og stendur þar maður í skotheldu vesti, með ljóta klippingu og starir á mig illum augum. Ég hef aldrei verið jafn fljót að bakka og koma mér í vinnu! Ég er hrædd! 😦

Ég er enn að vinna við manntalið og  þótt erfitt sé að trúa því, þá hef ég einstaka sinnum gaman að. Ég var að slá inn ýmsar upplýsinar frá Sauðlauksdalssókn í Barðastrandarsýslu og kom ég að bænum Vatnsdal, en þar bjuggu hjónin Guðmundur og Helga og áttu þau þrjá syni. Þetta þætti nú ekki frá sögum færandi nema hvað… synirnir hétu Sigurður Andrjes, Sigurður og Sigurður Þór. Ég vona að í framtíðinni verði ég jafn hagsýn og þessi skötuhjú. Hver veit, kannski áttu þau hjón allt eins von á að eignast 20 stykki krakka og hver hefur svosem tíma til að finna ný nöfn á alla. Þetta er frábær tímasparnaður og stefni ég á að gera hið sama þegar ég fer að gjóta. Á sama tíma er ég svo viss um að þeir sem hafa tíma til að finna upp á nöfnum eins og Karkur, Hlökk og Kría hafi bara ekkert betra að gera en að fletta upp í orðabókum. Svo er aldrei að vita nema að eftir 5 ár eða svo verða allir svo uppteknir að fólk hafi engan tíma til að bíða eftir innblæstri og börnum verði gefin nöfn eins og Sófi, Spegill og Vaskafat.

Þetta var þó greinilega ekki alltaf svona, þ.e. að fólk hafi gefið börnunum eitt og sama nafnið sem þau urðu að deila. Sumir veltu þessu greinilega mikið fyrir sér svo niðjatal framtíðarinnar yrði skemmtilegra aflestrar. Má þar nefna bræðurna Vandráð, Torráð og Óspak (sem hafði viðurnefnið ,,spaki“). Er það bara mér sem finnst þetta hljóma eins og uppúr Tinna bók?

Ef þið hafið áhuga á að heyra meira um nafngiftir á fyrri árum, megið þið endilega taka það fram í athugasemdunum og verð ég við þessari bón. Ég hef jú aðgang að þeim allan daginn.

Blog Stats

  • 9.649 hits
júní 2007
M F V F F S S
 123
45678910
11121314151617
18192021222324
252627282930