You are currently browsing the monthly archive for ágúst 2007.

Ég hef hafið nám í Háskóla Íslands. Hingað til hef ég setið einn kynningarfund fyrir nýnema, skoðað Eirberg, keypt mér skólabækur og haft samband við Lánasjóð íslenskra námsmanna og þessu hef ég komist að: þetta verður seint talin liðlegasta stofnun Íslands.

Mental minnispunktar sem ég hef tekið síðustu tvo daga sem og svör sem ég hef fengið við fyrirspurnum mínum:

  • ,,Hvernig á ég að vita það?“ (svar starfsmanns í bóksölunni um spurningu varðandi kaup á skólabókum)
  • ,,Auðvitað er ekki útsala hér!!!“ (svar/öskur annars starfsmanns bóksölunnar þegar ég, í sakleysi mínu og góðri trú um að húmor væri líka að finna í miðbænum, sagði að greinilega væri ekki útsala hjá þeim þessa dagana)
  • ,,Skrifaðu bara eitthvað“ (svar starfsmanns LÍN varðandi umsóknir um námslán)
  • Kaupa amfetamín áður en almenn kennsla hefst til að halda sér vakandi meðan á fyrirlestrum stendur.
  • Aðalmarkmið HÍ er að skerpa heyrn nemenda með því að tala svo lágt að engin heyri í kennaranum… þó hann sé með míkrafón.
  • Annað markmið háskólans virðist vera að fækka nemendum með því að láta þá leggja eins langt frá Eirbergi og mögulegt er. Þeir muni því annað hvort drepa sig á því að reyna að hlaupa yfir gömlu Hringbrautina eða að leita að næstu gönguljósum (semsagt frjósa í hel).

Velkomin í Háskóla Íslands (sagt með flugfreyjuröddu)

Ég byrjaði að pakka í dag. Tók nærri öll fötin mín úr fataskápnum og kom fyrir í töskunni. Taskan er ekki nema hálffull. Ég hugsa með mér að þetta sé nú þó nokkuð vel pakkað hjá mér. Nú á ég bara eftir að ,,skella“ restinni ofan í og þá er allt klappað og klárt. Slepp við að senda einn einasta kassa eða kaupa auka tösku. En svo fór ég að velta fyrir mér… það sem ég á eftir að setja ofan í töskugarminn er allt snyrtidraslið (alls konar hárvörur, förðunardrasl, skartgripir, hárblásari, sléttujárn, body lotion x4 o.s.frv.), 12 pör af skóm, úlpa, treflar,húfa, 2 jakkar að ógleymdri bestu vinkonu minni, Carrie Bradshaw (fyrir þá sem ekki eru nógu menningarlega sinnaðir til að vita hver það er…. þá er það karakter í Sex and the City… öllum 6 þáttaröðunum sem þarf að ferma yfir á frónið). Svo það sem ég vildi sagt hafa er: ef einhver þarf að flytja eitthvað smotterí frá Þýskalandi þá er smá pláss eftir í gáminum.

Ég hef fundið nýja afsökun fyrir því að kaupa óhemjumikið af fötum á stuttu tímabili. Skólinn er að byrja! Ég man þegar ég var lítil og farið var með mann í búðir til að kaupa föt fyrir skólann. Það  skemmtilega er svo að hér í Þýskalandi er ódýrara en heima á fróninu sem þýðir að ég fæ meira fyrir minna. Mér líður eins og það séu að koma jól; ég get keypt án samviskubits!

Talandi um kaup á fötum og öðrum vörum fyrir skólann. Það var frétt um daginn þar sem talað var um dýrar skólatöskur. Sagt var frá því að samkeppnin væri svo ógurleg að verðmunurinn á milli búða, á tilteknum flottum skólatöskum, væri heilar 19 krónur! Samkeppni, my ass! Formaður neytandasamtakanna sagði að Íslendingar ættu þá bara að kaupa þessar tilteknu töskur í gegnum netið (helmingi ódýrari ef keyptar frá framleiðanda í Danmörku) og láta það ekki stoppa sig þó ekki væri hægt að senda þær til Íslands! Hvað formaðurinn meinar með þessu er mér enn hulið. Ef það er ekki sent, þá er það ekki sent! Kannski var hún að hvetja fólk til að panta í gegnum ættingja á Norðurlöndunum og láta þá senda manni þetta heim svo maður sleppi nú alveg örugglega við tolla og gjöld! Þetta er allavega eina skýringin sem ég get fundið á þessu ummælum formannsins. Sniðug/ur kall/kona að planta svona hugmyndum hjá fólki.

Blog Stats

  • 9.649 hits
ágúst 2007
M F V F F S S
 12345
6789101112
13141516171819
20212223242526
2728293031