Það er ekki hægt að segja að hér sé orðið mjög jólalegt, sem er þó ágætis tilbreyting frá æðinu sem virðist grípa Íslendinga um miðjan október!!! Það er varla að ég taki eftir því að það séu að koma jól nema þegar ég fer niður í miðbæ, en það gerðum við Ásgeir einmitt í gær. Í miðbæ Nürnberg er útimarkaður um jólin, Christkindelmarkt, þar sem allskonar vörur eru seldar á uppsprengdu verði og hægt er að kaupa sér Glühwein, Nürnberger bratwurzt í brauði, jólaskraut úr nikkeli (Sigga,  NIKKEL! Þú ættir kannski að benda einhverjum á þetta?) og gleri auk þess sem dúkkur úr sveskjum virðast vera mjög móðins hér… einhverjum sem vantar svoleiðis???

Ég verð nú eiginlega að segja að ég sakna jólanna örlítið. Mér finnst sem það verði ekki beint jól þetta árið. Ég er auðvitað að fara á mis við allt jólabrjálæðið á Íslandi (sem er af hinu góða) og svo er enginn snjór hér og aðeins jólaskraut í einstaka glugga. Ekki má svo gleyma því að hjá okkur Ásgeiri er ekki mikill undirbúningur enda verðum við á Kanarí yfir jólin. Það þýðir að ég er ekkert að velta mér uppúr jólahreingerningum eða bakstri…. Haha, gat ekki haldið aftur af mér! Ég að taka til eða baka, þvílíkar hörmungar sem það yrðu… 😉

Allavega, eins og dæma má af færslunni er ég ekki að gera neitt merkilegt hérna. Nú er víst bara ein vika eftir af þýskunámsskeiðinu sem þýðir að eftir næsta fimmtudag hef ég allan tímann í heiminum til að slaka á áður en bjórþamb og verslunarleiðangrar taka við! Um að gera að leggja ekki hart að sér! 🙂

Tschüss!