Mér finnst leiðinlegt að vaska upp. Það er svo ekki til að hjálpa að maður á að vaska leirtau uppúr heitu vatni og mér finnst heitt vatn… ja, heitt. Svo að ég kæmist örugglega ekki hjá því að vaska upp voru keyptir uppþvottahanskar svo viðkvæmar hendur mínir yrðu ekki fyrir skaða. Kaup á hönskunum er ekki beint það sem ég vil tala um heldur stærðirnar á þeim. Hendur mínar eru ekki stórar, frekar litlar ef eitthvað er. Samt sem áður rétt passa hanskarnir á mig en þeir eru í miðstærð, medium. Hægt var að kaupa small, medium og large og þar sem ég þoli ekki risastóra hanska ákváðum við að miðstærðin væri best. Þegar pokinn er svo opnaður komumst við að því að Ásgeir kemst ekki í hanskana nema þá með því að troða sér í þá og líta hendurnar á honum út eins fimm typpi í of litlum smokkum! Ef að þetta eru ekki skýr skilaboð til kvenna, þá veit ég ekki hvað! Mér finnst að stærðir á uppþvottahönskum eigi að fara eftir miðstærð handa beggja kynja en ekki bara kvenna! Þetta er svo sérstaklega furðulegt allt þar sem Ásgeir er ekki með neinar risahendur og get ég ímyndað mér að large hanskarnir séu rétt passlegir á hann. Er ekki þarna verið að mismuna stórhenntum karlmönnum með viðkvæma húð? Þeir geta, rétt eins og ég, ekki vaskað upp nema með hanska en þeir fást aðeins í litlum kvenmannsstærðum. Var þetta nú ekki áhugavert? 🙂

Óli, pabbi Ásgeirs, fór heim í dag eftir vikudvöl hér í Þýskalandi. Það var ágætt að geta talað við annan íslending hér en Ásgeir (þó hann sé eiginlega bara yngri útgáfa af pabba sínum, fyrir utan innkaupin auðvitað). Ég held ég hafi fitnað um 10 kíló meðan á dvöl hans stóð þar sem hann heimtaði að borga okkur gistinguna í formi matar á veitingastöðum. Það sagði hann allavega. Ég er eiginlega viss um að eftir yfirlýsingar mínar um hæfileika mína (eða skort á…) á sviði matargerðar, hafi hann ákveðið að hafa vaðið fyrir neðan sig, hmmm…

Nú er svo farið að styttast í að við komum í heimsókn til Íslands. Svo skemmtilega vill til að búið er að bjóða mér í 2 júróvisíónpartý/afmæli og svo á mamma afmæli daginn eftir og var upphaflega planið því að vera heima þetta kvöld og slaka aðeins á djamminu. Verður víst lítið úr því. Ef einhvern vill svo auka ruglið þá er endilega að bjóða mér í annað samskonar partý sama dag (ef þú ert svo að meina boðið af alvöru mæli ég með að kalla það ekki kosningapartý…)