Jæja, það er þá loksins að maður nennir að skrifa eitthvað. Ég verð að tilkynna þér það Sigga mín að Kurt kom ekki í dag, alla vega ekki meðan ég var heima. Ég og Ásgeir eyddum annars rúmum klukkutíma í garði hér rétt hjá, þar sem við sleiktum sólina og þessar 30°c sem hún sendi okkur! Þegar okkur var farið að líða illa vegna snjóleysis ákváðum við að leggja krók á leið okkar heim og koma við í búðinni og splæsa á okkur smá ís. Jammí!

 Anywho… alla síðustu viku vorum við í Burg Rieneck með öðrum skátum hvaðanæva úr heiminum. Það sem kom mér hvað mest á óvart var að ég skemmti mér vel og að skátar eru líka fólk! Þetta hafði meira að segja þau áhrif á mig að ég íhuga alvarlega að koma mér í einhvers konar skátastarf (ekki segja hinum skátunum en ástæðan er að ég vil fara aftur á næsta ári…).

Ég hef ekki frá miklu að segja eins og er. Kannski heilladísinn heimsæki mig í kvöld og segi mér eitthvað skemmtilegt sem ég get síðan sagt ykkur frá þegar ég nenni. Ahh jú! Ég er að fara að búa til myndasíðu þar sem ég set inn myndir sem ég hef tekið hér í Þýskalandi. Skrifa veffangið á eftir inná síðuna, hérna til vinstri. 

Mig langar í klippingu! Klippa það rétt fyrir ofan axlir (eins og það var), fá mér slatta af styttum og fara í strípur. Svo langar mig líka að fá mér hamborgara á Pylsubarnum í Hafnarfirði og fá bragðaref á Skalla á eftir (veit að það heitir ekki Skalli lengur, hef bara ekki hugmynd um hvað ,,nýja“ nafnið er). Mig langar líka rosalega til að fara á kaffihús með stelpunum mínum. Ég var að horfa á Sex And The City og það var svaka tónlist í þættinum og nú langar mig á djammið með Önnu. Það er líka ótrúlegt hvað Miranda minnir mig á Beggu frænku.

Ok. Biðst afsökunar á þessu þarna fyrir ofan. Þurfti bara að koma þessu frá mér. Hef svosem ekki frá neinu merkilegu að segja. Nema jú… eins og alltaf þá langar mig í eitthvað nýtt (og þá meina ég fyrir utan bolina þrjá sem ég keypti áðan) og í þetta skiptið hafa gleraugu orðið fyrir valinu. Gallinn er auðvitað sá að slíkir gersemar eru rándýrir. En… ég hef fundið hina fullkomnu lausn. Kaupa þau annars staðar en á Íslandi. Við Ásgeir álpuðumst inní gleraugnabúð í dag og DÝRUSTU gleraugun sem ég fann (voru meira að segja svo flott að þau voru læst inni í glerskáp) kostuðu 259 evrur!!! Þetta var heldur ekki nein slorbúð með slormerki. Þetta voru Dloce & Gabbana gleraugu! Svo var svona tilboð í gangi. 2 stykki á verði eins, svo lengi sem annað settið (gler + umgjörð) kostaði 99 evrur eða meira. Það lá við að ég fengi hamingjuflog! Það er næstum sama og ómögulegt að ganga inní gleraugnaverslun á Íslandi og koma út með gleraugu (með gleri í) og vera ekki nema 8700kr. fátækari. Hvað þá ef manni vantar 2 stykki!

Ég get víst verið ánægð þó ég geti ekki (ok, þori ekki) farið í klippingu, keypt mér almennilegan hamborgara eða fengið bragðaref. Nei, ég hef ákveðið að spara og kaupa mér gleraugu í staðinn! 🙂

Ég og Ásgeir höfum ákveðið að heiðra eitt stykki skátamót með viðveru okkar um páskana. Skátamót þetta er haldið hér í landi Þjóðverja svo ekki er langt fyrir okkur að fara. Allir þátttakendur eru vinsamlegast beðnir um að fylgja ákveðnu þema sem mótshaldarar hafi fundið upp á og þetta árið er það Sherlock Holmes og félagar. Þessu fylgir auðvitað að þeir sem ekki luma á tilheyrandi klæðnaði í fataskápnum hjá sér, þurfa að finna sér eitthvað sem hefði gegnið í
London um miðja 19. öldina. Íbúar Peterastrasse 1, 5. hæð, miðjuíbúð, virtust ekki eiga slíkan gersema þannig að leið þeirra lá í ,,second hand“ búð í miðbæ Nürnberg. Þetta þótti allsérstakt þar sem það er vitað mál að ég er jú, með ofnæmi fyrir fötum sem ég veit ekki hverjir hafa átt áður. Samþykki lá þó fyrir eftir að ákvörðun hafði verið tekin um að leiðinni heim myndum við kippa upp eins og einu extra-multi-super-klór þvottaefni á leiðinni heim. 🙂
Það sérstaka við frásögn þessa er þó ekki að fatakaup skuli hafa farið fram eða að þau hafi verið framkvæmd í ,,second hand“ búð. Nei, ó nei. Ég hafði fundið ágætis fatnað í búðinni (vítt og sítt svart pils, gul-hvíta skyrtu sem er hneppt upp að höku og hatt með slaufu í stíl) og var í mátunarklefa fullklædd. Ég skælbrosi framan í spegilinn enda skemmtileg sjón. Er þá ekki klefinn
minn opnaður og kella ein glápir inní hann. Þegar hún hefur áttað sig á að hann er upptekinn lokar hún aftur. Sekúndum seinna opnar hún aftur, lokar og hlær svo frammi! Opnar svo í þriðja skiptið eins og ég sé eitthvað frík í dýragarði (eða hún hefur haldið að þarna væri tímavél á ferð og ef svo er, er henni fyrirgefið)! Ég er ekki lengi að vippa mér úr skrúðanum og labba fram. Stendur ekki kella þar og glottir til mín. ARG!
Ég, kurteisin uppmáluð sem ætíð, segi auðvitað ekkert við kelluna (ekki halda að ástæðan hafi verið að ég kunni ekki að segja neitt á þýsku, því það er sko ekki rétt…) og borga fyrir. Þetta atvik minnti mig þó á þegar ég og góð vinkona mín þurftum að fara inní Blómaval og vildi svo til að vinkona mín var klædd (og máluð) eins og Silvía Nótt. Það fyrsta sem við sjáum þegar við göngum inní búðina er bekkjarfélagi vinkonu minnar. Henni bregður, enda bjóst hún ekki við að þekkja neinn þarna og kallar skelkuð upp fyrir sig, ,,ég er á leið í þemapartý, SKO!“

Ég las furðulega frétt áðan á vef Morgunblaðsins. Sagt var frá að maður á þrítugsaldri yrði líkast til dæmdur til fjársektar fyrir að hafa keypt áfengi handa unglingum á aldrinum 16-17 ára. Þetta þykir eflaust fréttnæmt þar sem ekki er oft haft hendur í hári fólks sem fremur brot sem þetta og jafnvel líka öðrum víti til varnaðar. Það sem vakti þó furðu mína var, hvernig í ósköpunum komst þetta upp? Það var tekið fram að maðurinn hafði verslað í vínbúð í Smáralind og verið handtekin þar. Er þetta heimskasti lögbrjótur Íslands, eða…? Fór hann virkilega inní Ríkið, keypti áfengi eftir kalli og rétti þeim svo pokann fyrir utan? Vildi hann að þetta kæmist upp? Ef ekki, af hverju afhenti hann þá ekki veigarnar annarsstaðar en beint fyrir utan verslunina. Hefði jafnvel ekki þurft að fara lengra en útá bílastæði.

Í sömu frétt kom fram að tvær konur hefðu verið gripnar við samskonar athæfi síðastliðinn laugardag. Ég er farin að halda að flensan sem gengið hefur undanfarið hafi leitt upp í heila og skaddað þar skynsemi fólks. Nú er ég ekki beint að segja að það sé mjög skynsamt að kaupa áfengi handa þeim sem ekki hafa lögaldur til að drekka það EN ef maður er að gera það á annað borð þá er betra að afhenda ekki búsið í verslunarmiðstöð, fullri af fólki sem er, mögulega ekki sammála þér um réttmæti unglingadrykkju!

Ekki truflaði það mig að sjá orðið ,,sláttujárn“ í síðustu færslu fyrr en þú nefndir þetta, Heiðrún. Nú les ég alltaf slÉttujárn og neyðist því til að skrifa nýja færslu þar sem þetta fer illilega í mig…

Það er annars ekki frá mörgu að segja enda geri ég fátt annað en að elda og baka. Hef því miður ekki gert mikið af því síðarnefnda undanfarið þar sem ég er búin með kakóið og nenni ekki útí búð. Ekki segja að það sé hægt að baka án þess að hafa kakó þar sem baka AUÐVITAÐ bara súkkulaðikökur. Ég og Ásgeir fengum þessa líka glæsilegu eftirréttabók í jólagjöf sem hefur verið nýtt vel og mun gera lengi!

Ég vil svo líka þakka þeim sem tóku beiðni mína til greina og hringdu í veðurguðina og tóku til baka sendinguna með vonda veðrinu. Ykkur heima á íshellunni þykir eflaust gaman að heyra af því að hér hefur verið 15 stiga hiti og sól í 3 daga! Alveg viss um að þið viljið ekki koma í heimsókn…?

Þar sem þessi færsla er nú þegar orðin eins og illa skipulagður fréttapistill þá get ég allt eins haldið áfram og sagt frá þeim skemmtileg fréttum að ég er orðin margra barna móðir á ný. Jamm, ég fékk 2 skópör á mánudaginn! Ég er svo hamingjusöm, enda skórnir svo fallegir og þeir elska mig svo mikið enda brosi ég alltaf einstaklega fallega til þeirra þegar ég labba framhjá! Ég get svo líka greint frá því að Ásgeir gaf mér tvær guðdómlegar bækur í afmælisgjöf. Báðar er hálfgerðar myndabækur en þó mjög ólíkar. Önnur er um Þýskaland og í henni má einnig finna texta (á þremur tungumálum og já, eitt þeirra skiljanlegt) og sú seinni er ljósmyndabók um Afganistan, myndirnar allar teknar á árunum 1964-1978… ég held að það sé ekki til nógu sterkt lýsingarorð til að koma á framfæri þóknun minni á þessari bók. Það er smá texti í bókinni á þýsku en ég læt það ekki trufla mig. Myndirnar tala sínu máli…ahhhh 🙂

Nú nálgast dauðinn óðfluga… já, ég verð 21 árs á morgun! Í tilefni afmælisins ákvað ég að líta á farinn veg en, enn sem komið er, hef ég ekki komist lengra en til síðasta sumars. Ég ákvað að kíkja á interrail síðuna okkar og lesa gamlar færslur en það er eitthvað sem ég hef ekki gert lengri. Ég verð bara að viðurkenna að ég varð hálf klökk. Það er oft þegar maður les bréf eða tölvupóst frá ættingjum og vinum (sérstaklega eitthvað gamalt) sem maður kemst að því hvað maður á góða að. Færslan sem mér fannst hvað skemmtilegast að lesa var um eltingarleikinn fræga sem við áttum í við unga pilta frá Englandi. Það skemmtilegasta var þó að kommentin sem fylgdu voru ansi mörg enda var stutt í heimkomu hjá okkur og var fólk að tilkynna hvað það saknaði okkar og að það hlakkaði til að fá okkur heim. Alltaf gaman að rifja svona upp… sérstaklega þar sem ég sit útþemd (ég át súkkulaðiköku í morgunmat) og einmana í Þýskalandi með þrítugsaldurinn svífandi ógnandi (já, með ljáinn) yfir mér!

Ég fór annars í gönguferð með Ásgeiri, Ekka og Ditu síðasta sunnudag. Við gengum um svæði sem nefnist Frankneska Sviss. Ég verð að taka fram að þegar ég hugsa um Sviss, sé ég fyrir mér fjöll. Þarna var jú, einn hóll en harla eitthvað sem ég myndi líkja við Svissnesku alpana. Við ,,klifum“ hólinn og á toppnum mátti finna þennan ágæta veitingastað sem gaf þreyttum klifurdýrum að borða. Ágætis dagur enda sá eini þar sem sést hefur til sólar í dágóðan tíma. Það lítur nefnilega út fyrir að hinn séríslenski suddi sé komin til Nürnberg og ætli sér að setjast hér að. Þó heimþráin sé einhver þá er veðrið eitthvað sem ég sakna ekki þannig að hver sá sem sendi þetta hingað til að hugga mig, má biðja um endursendingu til baka.

 Ásgeir er orðinn óþolinmóður. Við ætlum að kíkja í bæinn (ég sé að mömmu klæjar í fingurna) og er Ásgeir búinn að klæða sig í úlpuna og stendur yfir mér… ég get rétt ímyndað mér hvað það þýðir…

Tschüss!

Ég var að enda við að lesa frétt á vef Morgunblaðsins og á ekki til orð! Verið var að segja frá úrskurði í dómsmáli á Íslandi þar sem kona kærir lækni fyrir afglöp. Málið var að hún fer til þessa læknis til að fá staf undir húð, en það er getnaðarvörn sem á að duga í einhvern tíma (ekki viss hversu langan tíma en held það sé u.þ.b. ár). Mánuði seinna kemst konan að því að hún er ólétt! Þá hafði læknirinn TALIÐ sig setja stafinn á sinn stað en eitthvað hafði misfarist. Læknirinn er sýknaður með þeim rökum að hann hafi jú TALIÐ sig setja stafinn á sinn stað. Talið? Það er ekki allt í lagi! Ég ætlast til þess að læknar VITI og KUNNI ýmislegt eftir allt þetta nám.
Nema hvað, konan fer í fóstureyðingu þar sem hún er ekki tilbúin til að eignast barn (augljóslega í ljósi þess að hún hafði hugsað sér að fá langvarandi getnaðarvörn) og á einhvern undarlegan hátt virðist sem það sé einungis til að skemma málstað hennar! Persónulega, finnst mér það ekki koma málinu við hvað hún ákveður að gera varðandi þungun sína. Það kemur engum nema henni við.

Hvað ef þetta væri eitthvað annað sem læknirinn hefði talið sig gert (eða ekki). Svo virðist sem þetta sé bara allt í lagi af því að stelpan var,,bara“ ólétt.

Á skurðstofunni:

Læknir: Þá er það komið á sinn stað. Búinn að sauma manninn saman og allt í góðu. Er til kaffi?

Hjúkka: Uhh… fyrirgefðu læknir, en hjartað er enn hér á bakkanum. Mér sýnist sem þú hafir gleymt að setja það á sinn stað.

Læknir: Ha? Hvað segirðu? Ég sem var viss um að ég setti það á sinn stað. Jæja, það verður að hafa það. Vonum bara að hann komist ekki að því!

Ég VERÐ að fá að vita þetta, áður en ég verð geðveik!
Ég er að hugsa um mynd. Hún er japönsk. Fjallar um systkini sem þurfa að sjá um sig sjálf eftir að mamma þeirra yfirgefur þau. Yngsta systirinn deyr og systkini hennar og vinkona þeirra grafa hana hjá flugvelli, í ferðatösku sem er annars full af sælgæti. Hvað heitir þessi mynd?

Hver sá sem svarar þessu mun eiga ást mín að eilífu!

Mig langaði aðeins til að breyta útlitinu á síðunni minni. Hvernig finnst ykkur? Annars á ég við lítið vandamál að stríða og það er að mig langar í nýjan haus (myndin á topp síðunnar). Vandamálið er að ég veit nákvæmlega hvaða mynd ég vil nota en til þess þarf ég þó leyfi frá ákveðinni manneskju… Heiðrún? Ég held þú vitir hvaða mynd ég á við…

Ég bý svo vel að búa í endaíbúð í blokk og hef því glugga sem snúa í tvær áttir. Önnur hliðin er nú ekki spennandi en hún vísar út á umferðargötu en hin hliðin er skemmtilegri. Hún snýr að blokk sem stendur hinum megin við litla götu en er svo nálægt að ég get fylgst gaumgæfilega með lífi nágranna minni. Blokkin er 6 hæðir, eða 1 hæð meira en mín. Á efstu hæð býr eldri kona sem ég hef einstaklega gaman af. Hún er með gardínur fyrir hálfum glugganum og þegar hún þarf að kíkja út, sem er nokkuð oft, lyftir hún upp öðru horni gardínunnar og gægist. Þetta gerir hún eflaust svo engin komist að því hversu forvitin hún er, en ég veit betur… 🙂 Ef hún tekur eftir gluggagæjinum hinum megin við götuna (aka ég) þá ætla ég að vinka. Hver veit, kannski eignast ég vin!kasta

Beint fyrir neðan hana býr svo kona sem er einstaklega pirrandi. Þessi kona er ekki jafn skemmtileg þar sem hún er mjög opinská í forvitni sinni. Henni nægir ekki að kíkja (eins og mér og gömlu konunni á 6. hæð) heldur opnar hún gluggann upp á gátt (svona eins og dyr), setur púða á silluna og hallar sér út! Þvílík og önnur eins ósvífni! Ég veit ekki einu sinni á hvað hún þykist vera að horfa, þarna er ekkert nema umferðargata! Eins og þetta sé ekki nóg þá stóð ég hana að því að halla sér útum gluggann í morgun, klædd flegnum náttkjól, borandi í nefið!

Allra skemmtilegustu nágrannar mínir eru þó ungir menn (3 talsins) sem búa á 4. hæð. Þeir eyða miklum tíma inni í eldhúsi (þar er engin gardína svo maður sér beint inn) og eiga það til að rífast þar. Ég sá þá m.a.s. einu sinni kasta brauði! Það eina amalega við þessa íbúð er að þeir sofa í kojum (mjög juvi) og eiga einstaklega ljót sængurföt. Sætir strákar þó sem eru eflaust ágætis fengur þar sem þeir virðast kunna að elda. 🙂

P.S. Ég geri mér fullkomna grein fyrir því hvað þessi færsla segir um afþreyingu mína á daginn. Eða skort þar á.

Blog Stats

  • 9.644 hits
janúar 2022
M F V F F S S
 12
3456789
10111213141516
17181920212223
24252627282930
31