Ég bjóst við því að þegar ég færi frá Nürnberg myndi ég sakna þess að eiga áhugaverða nágranna. Úti var kellinginn sem gægðist út um eldhúsgluggann sinn og hélt að enginn sæi hana, sætu strákarnir sem elduðu seint á kvöldin og konan með stóru júllurnar sem hékk útum gluggann sinn hálfan daginn með hárið í allar áttir. Já, ég hélt að þessum kafla í lífi mínu, sem gluggagægir, væri lokið. Því miður hafði ég rangt fyrir mér.

Núna rétt áðan stóð ég úti á svölum hjá mér og leit í kringum mig og auðvitað leituðu augu mín til glugga nágranna minna. Það sem ég sá var hálfnakinn maður (sem ég hef séð áður, bara fullklæddann) sem stóð í eldhúsinu sínu. Hann slekkur svo ljósið þar og gengur fram á gang. Ég var sátt með að hafa séð líf og hugsaði með mér að nú gæti ég farið sátt að sofa. Úr því varð ekki þar sem maðurinn gengur inn í herbergi (sem ég geri nú ráð fyrir að sé svefnherbergi) og klæðir sig úr buxunum. Ekki nóg með það heldur fjúka sokkarnir og nærurnar á eftir (þær voru rauðar, ef einhver hefur áhuga…) og maðurinn stendur nú full frontal í nokkrar sekúndur áður en hann kastar sér í rúmið. Mér finnst sem ég hafi misst sakleysi mitt og að maðurinn hafi misnotað sér áráttu mína sem gluggagægir. Héðan í frá mun ég bara glápa á hæðina fyrir ofan og sjá hvort að dökkhærða stelpan matreiði eitthvað spennandi og taki þetta fáránlega drasl úr glugganum hjá sér!