Ég hef fundið nýja afsökun fyrir því að kaupa óhemjumikið af fötum á stuttu tímabili. Skólinn er að byrja! Ég man þegar ég var lítil og farið var með mann í búðir til að kaupa föt fyrir skólann. Það  skemmtilega er svo að hér í Þýskalandi er ódýrara en heima á fróninu sem þýðir að ég fæ meira fyrir minna. Mér líður eins og það séu að koma jól; ég get keypt án samviskubits!

Talandi um kaup á fötum og öðrum vörum fyrir skólann. Það var frétt um daginn þar sem talað var um dýrar skólatöskur. Sagt var frá því að samkeppnin væri svo ógurleg að verðmunurinn á milli búða, á tilteknum flottum skólatöskum, væri heilar 19 krónur! Samkeppni, my ass! Formaður neytandasamtakanna sagði að Íslendingar ættu þá bara að kaupa þessar tilteknu töskur í gegnum netið (helmingi ódýrari ef keyptar frá framleiðanda í Danmörku) og láta það ekki stoppa sig þó ekki væri hægt að senda þær til Íslands! Hvað formaðurinn meinar með þessu er mér enn hulið. Ef það er ekki sent, þá er það ekki sent! Kannski var hún að hvetja fólk til að panta í gegnum ættingja á Norðurlöndunum og láta þá senda manni þetta heim svo maður sleppi nú alveg örugglega við tolla og gjöld! Þetta er allavega eina skýringin sem ég get fundið á þessu ummælum formannsins. Sniðug/ur kall/kona að planta svona hugmyndum hjá fólki.