Ég er enn að vinna við manntalið og þótt erfitt sé að trúa því, þá hef ég einstaka sinnum gaman að. Ég var að slá inn ýmsar upplýsinar frá Sauðlauksdalssókn í Barðastrandarsýslu og kom ég að bænum Vatnsdal, en þar bjuggu hjónin Guðmundur og Helga og áttu þau þrjá syni. Þetta þætti nú ekki frá sögum færandi nema hvað… synirnir hétu Sigurður Andrjes, Sigurður og Sigurður Þór. Ég vona að í framtíðinni verði ég jafn hagsýn og þessi skötuhjú. Hver veit, kannski áttu þau hjón allt eins von á að eignast 20 stykki krakka og hver hefur svosem tíma til að finna ný nöfn á alla. Þetta er frábær tímasparnaður og stefni ég á að gera hið sama þegar ég fer að gjóta. Á sama tíma er ég svo viss um að þeir sem hafa tíma til að finna upp á nöfnum eins og Karkur, Hlökk og Kría hafi bara ekkert betra að gera en að fletta upp í orðabókum. Svo er aldrei að vita nema að eftir 5 ár eða svo verða allir svo uppteknir að fólk hafi engan tíma til að bíða eftir innblæstri og börnum verði gefin nöfn eins og Sófi, Spegill og Vaskafat.
Þetta var þó greinilega ekki alltaf svona, þ.e. að fólk hafi gefið börnunum eitt og sama nafnið sem þau urðu að deila. Sumir veltu þessu greinilega mikið fyrir sér svo niðjatal framtíðarinnar yrði skemmtilegra aflestrar. Má þar nefna bræðurna Vandráð, Torráð og Óspak (sem hafði viðurnefnið ,,spaki“). Er það bara mér sem finnst þetta hljóma eins og uppúr Tinna bók?
Ef þið hafið áhuga á að heyra meira um nafngiftir á fyrri árum, megið þið endilega taka það fram í athugasemdunum og verð ég við þessari bón. Ég hef jú aðgang að þeim allan daginn.
7 athugasemdir
Comments feed for this article
júní 4, 2007 kl. 5:05 e.h.
Bakkus
Ég er svo ofsalega vel að mér að ég veit af hverju þessir bræður voru allir nafnar. Í gamla daga var fólk ekki visst um að börnin myndu komast til manns og því voru þessir drengir allir skírðir Sigurður til að a.m.k. einn myndi vaxa úr grasi og bera nafnið áfram.
Börnin mín munu sennilega heita Sígó og Lakkrís. Efst mér í huga svona yfirleitt 🙂
júní 4, 2007 kl. 9:09 e.h.
Una Guðlaug Sveinsdóttir
Haha ég elska vinnubloggin þín. Einnig að tala við þig á msn þegar þú ert í vinnunni. Ekki það að þú sért einhvern tímann á msn í vinnunni eh eh eh…
júní 5, 2007 kl. 12:22 e.h.
Gunnlaug Björk
Ég hef alveg afskaplega gaman af þessum kommentum þínum og þú mátt því gjarnan halda þessu athæfi áfram 😛
júní 5, 2007 kl. 12:23 e.h.
Gunnlaug Björk
finnst þér ekki að ég ætti að vera kölluð spök!?
júní 5, 2007 kl. 1:28 e.h.
Helga
Spök? Hljómar eins og nafn á rollu!
júní 6, 2007 kl. 10:12 e.h.
Heiðrún
Hahaha, Gulla Spaka! jú, ég hef lúmskt gaman af vinnufærslunum þínum Helga svo endilega haltu þeim áfram þann stutta tíma sem þú átt eftir hér á klakanum. Vá, ég er ekki enn að vilja átta mig á því að þú sért að yfirgefa mig… AFTUR! 😦
Sjálf er ég voða hrifin af nafninu Vaskafat… hvernig væri það ef ég myndi skýra frumburð minn Spakt Vaskafat? 😉
júní 7, 2007 kl. 9:12 f.h.
Helga
HAHAHAHAHA!! Ég gef samþykki mitt Heiðrún en bara ef ég má halda undir skírn OG tilkynna presti hvað barnið heitir!