Ég bý svo vel að búa í endaíbúð í blokk og hef því glugga sem snúa í tvær áttir. Önnur hliðin er nú ekki spennandi en hún vísar út á umferðargötu en hin hliðin er skemmtilegri. Hún snýr að blokk sem stendur hinum megin við litla götu en er svo nálægt að ég get fylgst gaumgæfilega með lífi nágranna minni. Blokkin er 6 hæðir, eða 1 hæð meira en mín. Á efstu hæð býr eldri kona sem ég hef einstaklega gaman af. Hún er með gardínur fyrir hálfum glugganum og þegar hún þarf að kíkja út, sem er nokkuð oft, lyftir hún upp öðru horni gardínunnar og gægist. Þetta gerir hún eflaust svo engin komist að því hversu forvitin hún er, en ég veit betur… 🙂 Ef hún tekur eftir gluggagæjinum hinum megin við götuna (aka ég) þá ætla ég að vinka. Hver veit, kannski eignast ég vin!kasta

Beint fyrir neðan hana býr svo kona sem er einstaklega pirrandi. Þessi kona er ekki jafn skemmtileg þar sem hún er mjög opinská í forvitni sinni. Henni nægir ekki að kíkja (eins og mér og gömlu konunni á 6. hæð) heldur opnar hún gluggann upp á gátt (svona eins og dyr), setur púða á silluna og hallar sér út! Þvílík og önnur eins ósvífni! Ég veit ekki einu sinni á hvað hún þykist vera að horfa, þarna er ekkert nema umferðargata! Eins og þetta sé ekki nóg þá stóð ég hana að því að halla sér útum gluggann í morgun, klædd flegnum náttkjól, borandi í nefið!

Allra skemmtilegustu nágrannar mínir eru þó ungir menn (3 talsins) sem búa á 4. hæð. Þeir eyða miklum tíma inni í eldhúsi (þar er engin gardína svo maður sér beint inn) og eiga það til að rífast þar. Ég sá þá m.a.s. einu sinni kasta brauði! Það eina amalega við þessa íbúð er að þeir sofa í kojum (mjög juvi) og eiga einstaklega ljót sængurföt. Sætir strákar þó sem eru eflaust ágætis fengur þar sem þeir virðast kunna að elda. 🙂

P.S. Ég geri mér fullkomna grein fyrir því hvað þessi færsla segir um afþreyingu mína á daginn. Eða skort þar á.