Ég man glögglega eftir þeim tíma þegar mér fannst sem foreldrar mínir væru gamlir og að þau skildu einfaldlega ekki hvernig það væri að vera ung! Jæja, ég á ekki börn og er rétt að skríða yfir á þrítugsaldurinn en finnst samt sem áður að ég hljóti að vera orðin gömul. Ég var að lesa blogg hjá ónefndri frænku minni sem er á miðjum táningsaldrinum og ég er ekki frá því að ég sé þegar komin á það stig ,,að skilja ekki“. Burtséð frá því að hún talar tungumál sem er mér óskiljanlegt (kommur, punktar og upphrópunarmerki hafa fengið nýja merkingu og orð koma fyrir sem hvergi má finna í orðabók, hvorki íslenskri né erlendum) þá er þetta sjálfhverfasta síða sem ég hef nokkurn tíma séð! Það fer meira fyrir andlitsmyndum af ónefndu frænkunni en texta og hver einasta færsla er fátt annað en lofgjörð um ágæti stúlkunnar og færni hennar í að tæla unga drengi!

Er þetta virkilega það sem hún vill að fólk haldi um sig? Ég fann síðuna hennar þegar ég var að vafra um netið og sá mynd af henni og ákvað því að lesa þetta. Hefði betur látið það eiga sig! En það sýnir bara og sannar að hver sem er getur fundið þetta. Ef ég hefði óstjórnlega löngun til að halda klúrna dagbók þá myndi ég ekki gera það á vettvangi sem amma og afi eiga leið um!

Ég er orðin svo gömul…