Útsölur, ó útsölur! Hversu mikið er hægt að leggja á saklausa sál? Svo virðist sem verslunareigendur hafi gaman af að sjá viðskiptavini sína þjást þar sem útsölur eru alltaf eftir helstu hátíðar (páskar og jól) og svo í sumarlok þegar við höfum öll eytt aleigunni í kælandi drykki, bikiní og ferðalög! Á svona stundum er auðvitað best að halda sér heima við en einstaka sinnum tekst móður minni (the shopaholic) að draga mig með sér. Í dag var einmitt ein slík stund! Ég er ekki frá því að kortið standi enn í logum! Það versta er þó ekki ferðin heldur sú staðreynd að móðir mín var með í för. Ef ég hef einhvern tíman talið mig færa í löngum verslunarferðum… mér skátlaðist! Ó já, móðir mín er örugglega heimsmeistari í löngum verslunarferðum og EIN klukkustund þykir ekki mikill tími til að eyða í HVERRI EINUSTU búð!

Móðir mín nefndi við mig að hún hefði hug á að koma í heimsókn til Þýskalands í sumar. Þegar ég nefndi þetta við Ásgeir hló hann og spurði hvort ég hefði sagt henni frá miðbænum. Já, það hef ég þegar gert og sé mikið eftir núna og er þegar farin að þróa með mér magasár vegna heimsóknarinnar þar sem ég hef ekki enn náð að átta mig almennilega á miðbænum vegna stærðar hans og fjölda verslana! Það er spurning hvort ég eigi að verða mér úti um ól áður en ástkær móðir mín kemur til að hafa hemil á henni. Ég hef oftar en einu sinni lent í því að segja við hana að núna hafi ég fengið nóg og sé farin út og segist hún þá koma. Aðeins sekúndubrotum seinna lít ég við og sé hana standa í hinum enda búðarinnar með bol í hendinni! Ég veit ég hef sagt að systkini mín séu besta getnaðarvörnin en hef nú komist að þeirri niðurstöðu að það er móðir mín einnig! 

P.S. Sorrý mamma. Ég elska þig!