Ég og Ásgeir fórum til Treuchtlingen um helgina. Vægast sagt áhugaverð ferð. Í fyrsta lagi má nefna að Uli (gestgjafinn) er þýskur og talar þ.a.l. þýsku. Heili minn er varanlega orðinn að hafragraut enda hefur þýska þann undarlega eiginleika að hlusti maður of mikið á fólk sem talar þetta tungumál lamast heili manns og hleypur í kekki. Vona að þetta sé ekki varanlegt!

Eins og það hafi ekki verið nóg að hafa graut á milli eyrnanna, komst ég að því að akstursmenning Þjóðverja er svolítið frábrugðin okkar. Uli keyrir um á ’83 módeli af Volkswagen Passat – gott mál. Uli er 75 ára – gott mál. Uli keyrir í myrkri – gott mál. Uli keyrir í rigningu – gott mál. Uli keyrir á 140 km/klst – EKKI gott mál og allra síst ef þú blandar áðurnefndum upplýsingum við! Við skulum bara segja að ég hafi kreppt tærnar pínku ponsu og langað til að æla aðeins meira en pínku ponsu!

Ferðin var annars ekki með öllu slæm enda fékk ég að skoða kirkju, gamlar kastalarústir og hálfgerða höll þar sem í dag er iðnarsafn. Fékk auk þess góðan mat en það getur bjargað hvaða degi sem er!

Fleiri verða fréttirnar ekki í bili.

Tschüss!